Alvotech gengur frá um 10 milljarða króna skuldabréfafjármögnun

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði gengið frá fjármögnun að fjárhæð um 10 milljarðar króna (u.þ.b. 70 milljónir Bandaríkjadala), miðað við núverandi gengi, í tveimur flokkum (flokkur A og flokkur B) í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti í almenn hlutabréf í Alvotech.

Alvotech ætlar að nýta stærstan hluta fjármögnunarinnar til að gera upp um 7,1 milljarðs króna víkjandi lán (50 milljónir Bandaríkjadala) frá Alvogen, sem tilkynnt var um 16. nóvember sl. Í samræmi við skilmála Alvogen lánsins, falla áskriftarréttindi lánveitandans að 4% almennra hluta í Alvotech því niður.

Alvotech mun gefa út skuldabréf til 36 mánaða að heildarfjárhæð um 10 milljarðar króna, miðað við núverandi gengi, í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti yfir í almenn hlutabréf. Flokkur A er gefinn út í íslenskum krónum og ber 15% vexti á ársgrundvelli, sem bætast við höfuðstólinn á hverjum gjalddaga og ávaxtast (s.n. PIK vextir) en flokkur B er gefinn út í Bandaríkjadölum og ber 12,5% PIK vexti á ári.

Eigendur skuldabréfanna (fyrir bæði flokk A og flokk B) hafa rétt til þess að breyta upprunalegum höfuðstól auk áfallinna vaxta og ávöxtunar að hluta eða öllu leyti í almenn hlutabréf í Alvotech á föstu gengi, sem er 10 Bandaríkjadalir á hlut. Breytiréttinn má nýta að hluta eða öllu leyti þann 31. desember 2023 eða 30. júní 2024.

Ráðgjafar Alvotech við útgáfuna voru Acro verðbréf, Arctica Finance, Arion banki og Landsbankinn.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alvotech.