Alvotech hefur klíníska rannsókn á AVT06

AVT06 er fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Eylea®

AVT06 er þriðja líftæknilyfjahliðstæða Alvotech sem tekin er til klínískrar rannsóknar

Alvotech hefur hafið klíníska rannsókn á AVT06 (aflibercept), fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea®. Markmið rannsóknarinnar er að bera saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og Eylea í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD).

ALVOEYE er fjölsetra, tvíblinduð, slembiröðuð rannsókn til að bera saman klíníska virkni viðmiðunarlyfsins og AVT06. Gert er ráð fyrir að í rannsókninni taki um það bil 444 einstaklingar þátt á heimsvísu. Meginendapunktur er breyting á leiðréttri sjónskerpu frá grunnmælingu fram í 8. viku.

Við erum afar ánægð með framgang lyfjaverkefna okkar, sem sýnir hvernig fullkomin aðstaða til þróunar og framleiðslu gerir okkur kleift að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áætlunum á sviði líftæknihliðstæðulyfja.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður

„Mikilvægt skref í þróun AVT06“

Eylea (aflibercept) er notað til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á síðasta ári námu tekjur af sölu Eylea um 130 milljörðum króna (10 milljörðum Bandaríkjadala) samkvæmt gögnum frá EVALUATE Pharma.

Upphaf klínískra rannsókna er mikilvægt skref í þróun AVT06 og sýnir árangur Alvotech í þróun líftæknilyfjahliðstæða við mörgum tegundum sjúkdóma, sem getur stuðlað að bættum hag fólks um allan heim.

Joseph McClellan, rannsóknarstjóri

Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða við sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdómum, beinþynningu eða krabbameini. AVT02 (adalimumab), líftæknilyfjahliðstæða við Humira® hefur þegar verið samþykkt og er komin á markað í Kanada og Evrópu, en gert er ráð fyrir að markaðssetning geti hafist í Bandaríkjunum 1. júlí á næsta ári að fengnu samþykki lyfjayfirvalda. Alvotech hefur nýlega kynnt jákvæðar niðurstöður úr klínískri rannsókn á sjúklingum og rannsókn á lyfjahvörfum fyrir AVT04, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara®.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alvotech.