Alvotech og JAMP Pharma fjölga samstarfsverkefnum til að bæta aðgengi að líftæknilyfjum í Kanada

Tveimur fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech fyrir sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og krabbamein er bætt við samstarfssamninginn.

Alvotech (NASDAQ First North: ALVO) og JAMP Pharma Group (JAMP Pharma), kanadískt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Montreal, tilkynntu í dag að þau hafi gert samkomulag um að bæta tveimur nýjum fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech við núverandi samstarf: AVT16, líftæknilyfjahliðstæðu fyrir sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og AVT33, líftæknilyfjahliðstæðu fyrir sjúklinga með krabbamein.

Við erum afar ánægð að fjölga verkefnum í samstarfinu við Alvotech, til þess að geta fært sjúklingum í Kanada fleiri ódýrari líftæknilyf. Við höfum þegar hafið sölu og markaðssetningu á Simlandi, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira og munum halda áfram að efla þjónustu okkar við sjúklinga og meðferðaraðila þeirra í gegnum BIOJAMP og JAMP Care.

Louis Pilon, forstjóri JAMP Pharma Group

Alvotech mun annast þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæðanna. Í skiptum fyrir áfangagreiðslur og hluta af framtíðarsölutekjum, fær JAMP Pharma einkaleyfi til að selja og markaðssetja tiltekin lyf Alvotech í Kanada og nýtir til þess öflugt sölunet og markaðsreynslu, en eftirspurn eftir líftæknilyfjahliðstæðum í Kanada fer ört vaxandi.

Samstarfið við JAMP Pharma getur gert okkur kleift að ná forystu á markaði fyrir líftæknilyfjahliðstæður í Kanada. Markmið okkar er að auðvelda og auka aðgengi að líftæknilyfjahliðstæðum fyrir sjúklinga um allan heim.

Róbert Wessman, stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech

JAMP Pharma tilkynnti í febrúar s.l. um stofnun BIOJAMP, sem ætlað er að festa fyrirtækið í sessi sem leiðandi aðili á markaði fyrir líftæknilyfjahliðstæður í Kanada. BIOJAMP og JAMP Care bjóða upp á þjónustu við sjúklinga og meðferðaraðila, til þess að auðvelda þeim að skipta yfir í líftæknilyfjahliðstæður, sem eru ódýrari en sambærileg líftæknilyf.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alvotech.