Alvotech og Oaktree Acquisition Corp. II tilkynna um samruna

Markmiðið að búa til leiðandi, alþjóðlegt, líftæknilyfjafyrirtæki sem verður skráð á alþjóðlegan hlutabréfamarkað

Skilar Alvotech um 60 milljörðum króna

Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech Holding S.A. hyggur á skráningu félagsins í bandarísku kauphöllina, NASDAQ en skráningin mun fara fram með sameiningu Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II. Tilkynnt var um samrunasamning félaganna tveggja í dag. Gert er ráð fyrir að þegar sameining Alvotech og Oaktree hefur að fullu gengið í gegn muni markaðsviðskipti með hlutabréf í sameinuðu fyrirtæki fara fram undir auðkenninu ALVO á NASDAQ í Bandaríkjunum.

Viðskiptin sem tilkynnt er um í dag munu skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni (fyrirvari er gerður um mögulegar innlausnir hluthafa Oaktree Acquisition Corp. II) sem skiptist í um 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree Acquisition Corp. II og yfir 150 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum, þar sem verðmæti er tíu dalir á hlut. Fjárfestarnir eru meðal annars: Suvretta Capital, Athos (sem er fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management, og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka og Landsbankanum og Arctica Finance, auk 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum. Heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala. Eftir fjármögnunina verður félagið í sterkri stöðu til frekari fjárfestinga og uppbyggingar.

Við erum afar spennt fyrir þessum stóra áfanga og næstu skrefum í þá átt að skrá félagið á bandarískan markað og einnig samstarfinu við Oaktree. Þessi viðskipti sem við tilkynnum í dag eiga að gera okkur kleift að bæta við fleiri lyfjum í þróun og með því leggja frekari drög að langtíma vexti fyrirtækisins.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

Núverandi hluthafar eiga áfram um 80% hlutafjár

Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta sínu hlutafé fyrir bréf í sameinuðu félagi. Þar á meðal Aztiq sem stýrt er af Róberti Wessman, Alvogen með CVC og Temasek sem leiðandi fjárfesta, Fuji Pharma lyfjafyrirtækið í Japan, YAS Holdings frá Abu Dhabi, Shinhan í Suður-Kóreu, hið bandaríska Baxter Healthcare SA og Athos (fjárfestingarfélag Strüngmann-fjölskyldunnar) frá Þýskalandi. Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga rúmlega 80% í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition Corp. II um 11%, og áðurnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 7% hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags sem Róbert leiðir. Þá er samheitalyfjafyrirtækið Alvogen, sem Róbert stýrir einnig, auk þess stór hluthafi, en í því félagi eru fjárfestingasjóðirnir CVC Capital Management og Temasek stórir eigendur.

Eftirspurn eftir bæði líftæknilyfjum og hliðstæðum þeirra hefur aukist hratt á heimsvísu síðustu tíu árin. Því er spáð að markaður fyrir þessi lyf muni vaxa um meira en tíu prósent á ári og að velta með líftæknilyf nemi 555 milljörðum Bandaríkjadala innan fimm ára. Þá muni markaðurinn með líftæknihliðstæðulyf (e. biosimilars), eins og þau sem Alvotech þróar og framleiðir, á sama tíma vera farinn að velta um 80 milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvarar yfir 10 þúsund milljörðum króna.

Búið að gera marga sérleyfissamninga um sölu og dreifingu á lyfjum Alvotech

Hjá Alvotech starfa ríflega 700 starfsmenn og eru margir þeirra vísindamenn í fremstu röð á sínu sviði. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í fimm löndum, en höfuðstöðvar og framleiðsla Alvotech er á Íslandi í hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýrinni í Vísindagörðum Háskóla Íslands. Nú er verið að byggja við hátæknisetrið og verður húsnæði fyrirtækisins tvöfaldað í árslok 2022. Háskólinn mun í framtíðinni hafa aðgang að rannsóknarstofum fyrirtækisins. Heildarfjárfesting í fyrirtækinu frá stofnun, þar með talið í þróun, er um 1 milljarður Bandaríkjadala.

Alvotech hefur þegar gert samninga um forsölu lyfja með samstarfssamningum við önnur stór lyfjafyrirtæki sem sjá um sölu og dreifingu framleiðslunnar í yfir 60 löndum. Þar á meðal eru t.a.m. lyfjarisinn Teva í Bandaríkjunum og Stada í Evrópu sem greiða Alvotech fyrir sérleyfi til markaðssetningar lyfja sem fyrirtækið þróar og framleiðir. Alls hefur Alvotech þegar selt þessi sérleyfi fyrir jafnvirði hátt í 1,15 milljarða Bandaríkjadala og eiga um 80% samningsfjárhæðanna eftir að greiðast til félagsins.