Hlutabréf í Alvotech tekin til viðskipta í íslensku kauphöllinni

Hlutabréf Alvotech voru tekin til viðskipta á Nasdaq First North Growth markaðnum í Reykjavík („Nasdaq First North“), fimmtudaginn 23. júní 2022, undir auðkenninu „ALVO“. Viðskipti með bréf félagsins hófust í bandarísku Nasdaq kauphöllinni í New York 16. júní sl. Alvotech verður því fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er á markað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Til að fagna skráningu félagsins mun Róbert Wessman stofnandi og stjórnarformaður Alvotech hringja lokabjöllu Nasdaq markaðarins í Reykjavík 23. júní. Athöfnin fer fram í höfuðstöðvum Alvotech í Vatnsmýrinni að viðstaddri stjórn, starfsfólki og gestum. Bein útsending af viðburðinum hefst á vefnum kl. 15:15.

Það er okkur mikil ánægja að ljúka fyrstu tvíhliða skráningu íslensks fyrirtækis í Bandaríkjunum og á Íslandi og að hafa náð þessum áfanga aðeins viku eftir að viðskipti hófust með bréf félagsins í New York.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.

„Á síðustu 10 árum höfum við fjárfest fyrir meira en einn milljarð Bandaríkjadala í fullkominni aðstöðu til að þróa og framleiða líftæknihliðstæðulyf í miklu magni“ sagði Róbert Wessman við þetta tilefni. „Þetta gerir því frábæra teymi sem starfar hjá Alvotech nú mögulegt að mæta vaxandi eftirspurn sjúklinga um allan heim eftir ódýrari hliðstæðum við dýr líftæknilyf.“

Alvotech þróar átta líftæknihliðstæður, sem geta nýst til meðferðar við fjölda sjúkdóma. Markaður fyrir viðmiðunarlyf þessara hliðstæða er áætlaður rúmlega 11.050 milljarðar króna (85 milljarðar Bandaríkjadala) á ári, samkvæmt greiningu EVALUATE Pharma. Fyrsta vara Alvotech á markaði er AVT02 (adalimumab), líftæknilyfjahliðstæða við Humira®, sem er mest selda lyf heims að COVID-19 bóluefnum undanskildum. Sala og dreifing er hafin í Kanada og Evrópu og er gert ráð fyrr að hún hefjist í Bandaríkjunum þann 1. júlí 2023. Þá kynnti fyrirtækið nýlega niðurstöður klínískrar rannsóknar og rannsóknar á lyfjamörkum AVT04 (ustekinumab), sem er líftæknilyfjahliðstæða við Stelara®.

Alvotech lauk samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II („OACB“) þann 15. júní, 2022. Í apríl 2022 tilkynnti Alvotech að það hefði gert samning við YA II PN, Ltd. („Yorkville“) um valkvæðan sölurétt á hlutabréfum félagsins, svonefndan SEPA (e. Standby Equity Purchase Agreement). Á sama tíma var tilkynnt að Sculptor Capital Management hefði undirritað bindandi viljayfirlýsingu við Alvotech um lánalínu. Gert er ráð fyrir að þessar fjármögnunarleiðir geti verið nýttar samkvæmt nánari ákvörðun Alvotech til að mæta útflæði vegna endurgreiðslu OACB til hluthafa sinna. Viðræður um lánasamninginn standa yfir og eru háðar samþykki allra hlutaðeigandi aðila.

Í skráningarferlinu aflaði Alvotech nýs hlutafjár að verðmæti 22,7 milljörðum króna (175 milljóna Bandaríkjadala) frá innlendum og alþjóðlegum fjárfestum, með útgáfu almennra hluta. Meðal þátttakenda í hlutafjáraukningunni voru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingarfélag Strüngmann fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek Holdings, YAS Holdings, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alvotech.