Líftæknilyf Alvotech fær markaðsleyfi í Kanada

Við erum afar ánægð með samþykkið frá kanadískum heilbrigðisyfirvöldum sem undirstrikar nálgun Alvotech að líftæknihliðstæðulyfjum á alþjóðamörkuðum og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við JAMP Pharma.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

SIMLANDI er sítratlaus hliðstæða líftæknilyfsins Humira® í háum styrk, sem notað er til að meðhöndla ýmsa bólgusjúkdóma. Heildartekjur af lyfinu Humira® árið 2020 jafngiltu um 2.600 milljörðum króna á heimsvísu, sem gerir það að söluhæsta lyfi heims. Lyfið var einnig það söluhæsta í Kanada, en tekjur af sölu þess í Kanada árið 2020 jafngiltu rúmum 90 milljörðum króna samkvæmt IQVIA.

Um JAMP Pharma Group

JAMP Pharma Group er kanadískt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Montreal-svæðinu. Það var stofnað í Bresku Kólumbíu fyrir meira en 30 árum og starfar á öllum sviðum lyfjamarkaðarins. JAMP Pharma Group framleiðir um 300 lyf og yfir 160 lausasölulyf, vítamín og fæðubótarefni innan deilda sinna, Wampole og Laboratoire Suisse. Fyrirtækið er einnig meðal stærstu fyrirtækja landsins þegar horft er til útgefinna lyfseðla á ársgrundvelli samkvæmt IQVIA. JAMP Pharma Group býður einnig upp á víðtækt stuðningskerfi fyrir sjúklinga sem nefnist JAMP CareTM, en það gildir fyrir öll sérlyf og líftæknilyf fyrirtækisins.

Um Alvotech

Alvotech er líftæknilyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja um allan heim. Allir þættir í framleiðslunni eru í höndum fyrirtækisins sjálfs til að tryggja hámarksgæði. Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech, sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri, eru búin fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja.

Um AVT02

AVT02 er einstofna mótefni og hliðstæða lyfsins Humira® (adalimumab). AVT02 hefur markaðsleyfi í Evrópusambandslöndunum og umsóknir um markaðsleyfi eru í ferli víða um heim. Í Bandaríkjunum er umsókn um markaðsleyfi fullbúin og bíður lokaúttektar á verksmiðjunni, sem mun fara fram á næstu misserum. JAMP Pharma hefur einkarétt á markaðssetningu AVT02 í Kanada undir nafninu SIMLANDI.