Alvotech

Skrifstofubygging Alvotech

Þróun og framleiðsla á hágæða líftæknihliðstæðulyfjum

Áhrifarík og hafa gefið góða raun í meðhöndlun á erfiðum sjúkdómum

Líftæknifyrirtækið Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að auka aðgengi sjúklinga um allan heim að hágæða líftæknilyfjum, lækka lyfjaverð og auka lífsgæði. Fyrirtækið vinnur að þróun og framleiðslu á hágæða líftækni hliðstæðulyfjum, en líftæknilyf eru afar áhrifarík og hafa gefið góða raun í meðhöndlun á erfiðum sjúkdómum eins og gigt, sóríasis og krabbameini.

Líftæknilyf eru búin til í lífverum eins og örverum eða frumum og því er ómögulegt að búa til samheitalyf sem er nákvæmlega eins og frumlyfið. Þess vegna er réttara að tala um hliðstæðulyf þegar um líftæknilyf er að ræða. Líftæknilyf eru afar dýr í þróun og framleiðslu, en með tilkomu hliðstæðulyfja eykst samkeppni, verðið lækkar og fleiri einstaklingum gefst kostur á meðferð. Tíu af fimmtán söluhæstu lyfjum í heiminum í dag eru líftæknilyf og notkun þeirra fer ört vaxandi.

Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri er búið fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja. Framkvæmdir eru í gangi við stækkun aðstöðunnar í Vatnsmýri um 12.500 fermetra sem er nánast tvöföldun og eru verklok áætluð í lok árs 2022.

Sem hluti af Vísindagörðum er fyrirtækið þátttakandi í öflugu samstarfi háskólans og alþjóðlegra þekkingar- og hátæknifyrirtækja sem miða að því að efla vísindastarf, þekkingarmiðlun og nýsköpun og þannig laða hæfileikaríka innlenda og erlenda sérfræðinga til starfa.

Fyrirtækið er einnig með starfsemi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss en um 700 vísindamenn og sérfræðingar af um 45 þjóðernum störfuðu hjá fyrirtækinu í september 2021.

Alvotech hefur gert samstarfssamninga við mörg leiðandi lyfjafyrirtæki á alþjóðamörkuðum um sölu, markaðssetningu og dreifingu á framleiðslu fyrirtækisins.

Alvotech vinnur út frá þeirri meginreglu að ef til er lækning, þá á hún að vera í boði fyrir alla óháð efnahag og stöðu.